Arnarhóll

Íbúaskrá

Kort af Reykjavík frá árinu 1787. Álitið er að búið hafi verið á Arnarhóli nánast frá landnámi. Sú ályktun hefur m.a. verið dregin af þykkum mannvistarlögum, sem eru á stórum hluta hólsins, að fljótlega eftir að Ísland byggðist hafi myndast þar byggð. Elsta byggðin mun vera frá því fyrir árið 1226 því hún er eldri en gjóska sem þá féll. Aðalleiðir til Reykjavíkur um aldir lágu um svonefndar Arnarhólstraðir í landi Arnarhóls og sjá má traðirnar á kortinu. Stiftamtmaður lét rífa bæjarhúsin árið 1828, sem þá voru orðin mjög léleg. Bærinn stóð þar sem styttan af Ingólfi Arnarsyni er nú og er þar ágætt dæmi um bæjarhól sem hlaðist hefur upp í gegnum aldirnar. Þótt bærinn hafi verið rifinn fyrir 1850 er hans þó getið hér. Arnarhólskot eða Litli Arnarhóll eins og bærinn var einnig kallaður var hjáleiga frá Arnarhóli. Á korti frá 1703 er Litli Arnarhóll sýndur, þ.a. bærinn er með elstu bæjum í Reykjavík. Ekki er ljóst hvenær hann er rifinn en líklegt er að það hafi verið nálægt miðri 19. öld. Land Arnarhóls lá frá ósi Arnarhólslækjarins að Bankastræti vestan megin. Núverandi Skólavörðuholt var áður kennt við Arnarhól og þá nefnt Arnarhólsholt.

Málverk Jóns Helgasonar biskups af Reykjavík eins og hann sér fyrir sér bæinn árið 1787. Byggir trúlega á kortinu að ofan og fleiri heimildum. Elsta varðveitta heimildin um Arnarhól er frá 16. öld, þar segir að Arnarhólsjörðin var í eigu Hrafns Guðmundssonar bónda í Engey. Árið 1534 gaf Hrafn jörðina Viðeyjarklaustri með gjafabréfi. Ekki er víst að Hrafn hafi búið á Arnarhóli en hann er seinasti bóndinn sem á jörðina. Nokkrum árum seinna kastaði konungur eign sinni á allar jarðir Viðeyjarklausturs og hafa þá verið rofnir þeir skilmálar, sem Hrafn setti fyrir gjöfinni. Þegar kaupstaður var stofnaður í Reykjavík árið 1786 og uppmæling fór fram á kaupstaðarlóðinni árið eftir þá kemur fram í skjali að Arnarhólinn skuli leggja til kaupstaðarlóðarinnar en það fórst fyrir svo að Arnarhóll lenti utan kaupstaðarlóðarinnar. Arnarhóll hefur tilheyrt Reykjavík frá 1835 þegar bæjarlandið var stækkað. Alþingishúsið var byggt árið 1881 stóð upphaflega til að byggja á Arnarhóli en Arnarhóll þótti þá of langt frá miðbænum, auk þess taldi landshöfðinginn að hann þyrfti hólinn sem beitiland. Því stendur Alþingishúsið í dag við Austurvöll.


Málverk Aage Nielsen frá um 1960 af stiftamtmannshúsinu nálægt 1820 (sem fáum árum áður var tugthús) og næsta umhverfi. Í bakgrunni má sjá torfbæinn Arnarhól, sem rifinn var 1828 og einnig Arnarhólstraðir sem var þjóðleiðin til Reykjavíkur um aldir. Myndin er lífleg og skemmtileg en taka verður hana með fyrirvara. Athygli vekur hversu fjallgarðurinn í kringum Reykjavík er fjarri raunveruleikanum. Danski fáninn áberandi, enda Reykjavík nánast danskur bær á þessum tíma.

Ljósmynd tekin frá Lækjartorgi trúlega nálægt 1890. Hægra megin sést í Batteríið á Arnarhólstúni en Arnarhólskot, sem var hjáleiga frá Arnarhóli, stóð þar nálægt. Nokkurn vegin þar sem hús Seðlabankans er nú. Málverk Jóns Helgasonar eins og hann sér fyrir sér Reykjavík um 1790, en myndin er máluð um öld síðar. Sýnir Arnarhólslæk, eða Lækinn eins og hann var oftast nefndur. Einnig má sjá Arnarhólstraðir.
Málverk af Reykjavík frá um 1850. Batteriið, þar sem Íslendingar hafa komist næst því að koma upp virki, sést vinstra megin á myndinni en þar stóð áður Arnarhólskot sem var hjáleiga frá Arnarhóli. Ljósmynd af kalkofninum sem reistur var nokkurn vegin þar sem Batteríið stóð. Verulegar landfyllingar hafa komið til síðan, en Seðlabankinn er i dag þar sem Batteríið stóð áður og ver fjármuni þjóðarinnar.
Ljósmynd frá 1907 af Batteríinu eða Jörundar-vígi eins og það var stundum nefnt. Ljósmynd af Batteríunu um eða rétt eftir 1900. Júlíus Havsteen amtmaður bendir á staðinn.


Ljósmynd Sigfúsar Eymundssonar frá 1882 tekin frá Arnarhóli. Arnarhólstúnið tilheyrði stiftamtmanni, sem kom í veg fyrir að Alþingishúsið yrði reist þar eins og til stóð. Taldi slíkt eflaust spilla túninu fyrir sér.
Hægra megin við Alþingishúsið má með lagni sjá torfbæinn Hólakot.