Bráðræði og bæir í nágrenninu

Bráðræðisholtið er kennt við bæinn Bráðræði sem stóð þar sem nú er Grandavegur 37. Nokkrir torfbæir voru í grenndinni og töldust hjáleigur frá Seli eða Stóri-Seli eins og það var síðar kallað. Kortið sýnir staðsetningu þessara bæja. Kortið er frá um 1850 skv. ýmsum heimildum en hugsanlega er það þó eitthvað yngra. Auk Bráðræðis töldust Litla-Sel, Steinsholt, Pálshús, Lágholt og Háholt til hjáleiga Sels. Hali sem stóð á núverandi gatnamótum Bræðraborgarstígs og Ránargötu auk Ánanausta og Garðshúsa voru í landi Hlíðarhúsa. Getið er um Bráðræði í heimildum árið 1784, Litla-Sel, Pálshús og Steinsholt rísa á fyrri hluta 19. aldar en Lághólt og Háholt eftir 1850. Torfbæirnir voru allir rifnir á seinni hluta 19. aldar og bæir með sömu nöfnum reistir í staðinn. Selsbæirnir tilheyrðu Seltjarnarneshreppi til 1835 þegar þeir færðust undir lögsagnarumdæmi Reykjavíkur. Ekki hefur tekist að hafa upp á ljósmyndum eða teikningum af þessum torfbæjum.
Kort af Bráðræðisholti frá 1902 (Landmælingadeild danska herforingjaráðsins). Bæirnir Bráðræði og Stórasel eru merktir á myndinni. Núverandi Grandavegur sést skáhallt í framhaldi af Framnesvegi. Kort Ólafs Þorsteinssonar af Bráðræðisholti frá um 1915. Bærinn Bráðræði er neðst til vinstri á myndinni. Einnig má sjá Steinabæ (40), Melstað (38), Stóra-Skipholt (36), Litla-Skipholt (34) og Austurholt (30), en þessir bæir voru reistir nálægt aldamótunum 1900.
Málverk af bænum Bráðræði og útihúsum. Thor Jenssen var þar með mikinn kúabúskap í byrjun 20. aldar. Kúnum var brynnt úr postulínskálum með sjálfbrynningarbúnaði sem þótti mikil nýjung á þeim tíma. Þetta hús var byggt árið 1904. Hér sést Bráðræði illa útlýtandi nálægt 1950, en býlið þótti reisulegt og vel viðhaldið í tíð Thors Jensen. Húsið var þó ekki rifið heldur flutt í Kópavog þar sem það var gert upp og stækkað.
Þetta hús sem reist var árið 1911 stendur enn í dag sem Lágholtsvegur 11. Torfbærinn Lágholt stóð á svipuðum slóðum. Strandlengjan er þarna nánast óröskuð. Það segir nokkuð um umfang landfyllinganna að í dag er Lágholtsvegur 11 í 200 metra fjarlægð frá sjónum. Kort af Bráðræðisholtinu í dag. Bráðræði stóð rétt sunnan við Grandaveg 37, Pálshús við Framnesveg 63. Lágholt stóð nálægt Lágholtsvegi 7 og 9.
Pálshús, steinbær sem reistur var á svipuðum slóðum og torfbær með sama nafni stóð. Fjölbýlishúsið sem í dag er Framnesvegur 63 var síðar byggt á þessum stað. Vatnslitamynd eftir Halldór Pétursson frá 1952. Græna húsið í bakgrunni vinstra megin er Lágholt sem ber sama nafn og upphaflegi torfbærinn. Lágholtsvegur er nefndur eftir bænum. Fremst á myndinni er fjós og hlaða, en lýsistankar Lýsis hf sjást í baksýn.
Líkan af Bráðræðisholti eins og það leit út árið 1886. Ljósmynd sýnir fólk að vinna fisk á Bráðræðisholti nálægt 1900. Sjósókn og fiskvinna var lífsviðurværi flestra á þessu svæði.