Dúkskot

Íbúaskrá
Dúkskot var byggt um 1800 í landi Hlíðarhúsa. Stóð í núverandi götustæði Garðastrætis við Vesturgötu. Fyrsti ábúandinn var Jón Jónsson frá Dúki í Staðarhreppi í Skagafirði og er heiti bæjarins dregið af því. Jón var oftast kallaður Jón dúkur og tengdist ýmsum sakamálum. Á 19. öld þótti Dúkskot þó með betri torfbæjum í Reykjavík. Vinstri myndin sýnir Dúkskot (merkt A) á korti Sveins Sveinssonar sett ofan á núverandi götukort. Sjá má að Dúkskot var þá tvö ótengd hús og snéru frá norðri til suðurs. Torfbærinn merktur B er Gróubær með tvær burstir sem snéru frá austri til vesturs.
Á myndinni hægra megin má sjá torfbæinn Dúkskot en hann var með síðustu torfbæjum í miðbænum, rifinn um eða upp úr 1920. Á myndinni sést austari bær Dúkskots en búið er að rífa vestari bæinn sem sést á kortinu frá 1887. Gróubær er litla timburhúsið hægra megin við torfbæinn, en áður stóð þar torfbær aðeins austar með sama nafni sem rifinn var árið 1920. Steinhúsið hægra megin á myndinni er Vesturgata 11. Á þessum tíma taldist Dúkskot til Vesturgötu 13 enda núverandi Garðastræti aðeins troðningur.
Samkvæmt flestum heimildum voru Dúkskot og Gróubær rifnir um 1920 þegar Garðastræti var stækkað enda stóðu bæirnir í núverandi vegstæði. Í Vísi árið 1919 segir "Dúkskot og Gróubær (gömlu torfbæirnir sem standa hvor hjá öðrum við Vesturgötu) ætlar bærinn að kaupa. Dúkskot verður rifið í haust, en Gróubær líklega að sumri. Falla þar einhverjir síðustu torfbæir innanbæjar og væri gamnan að láta taka ljósmynd af þeim áður en farið verður að hrófla við þeim". Þeir voru rifnir fljótlega eftir þetta því í Dagblaðinu árið 1925 er amast yfir hversu margir skammist sín fyrir gömlu torfbæina og telur blaðið þá eftirsjá af því að Dúkskot hafi verið rifið.


Ljósmynd af Dúkskoti úr dönsku ferðariti. Undir myndinni í bókinni segir "Gammelt hus i Reykjavik" og ljósmyndarinn er Gustaf Funk. Þótt nafn bæjarins komi ekki fram sést með samanburði við aðrar ljósmyndir á síðunni að þetta er Dúkskot. Fjögur börn standa við bæinn og horfa á ljósmyndarann. Líklegt er að þessi ljósmynd sé tekin upp úr aldamótunum 1900 eða heldur síðar. Bærinn virðist í heldur betra ásigkomulagi en á myndunum sem fylgja á eftir.
Með samanburði við næstu mynd sést líka að hlöðnu veggirnir eru ólíkir, enda kölluðu gömlu torfbæirnar á nánast stöðugt viðhald.


Ljósmynd af Dúkskoti, tekin af þýskum ferðalangi. Á myndinni segir að hún sé tekin sumarið 1925, en samkvæmt heimildum var Dúkskot rifið um eða uppúr 1920. Því er ártalið á myndinni rangt og líklegt að myndin tekin einhvern tíma á bilinu 1910-1915.
Óþekkt kona, trúlega heimilismaður í Dúkskoti, stendur við inngang bæjarins sem vísar út að Garðastræti. Hún stendur nokkurn vegin á miðri götunni fyrir framan við Garðastræti 4, eins og gatan liggur í dag.
Bærinn er þarna orðinn hrörlegur og þakið vafalítið verið óþétt í vætutíð. Sumir veggir eru hlaðnir en aðrir steinveggir. Í Vísi frá 1914 segir að Dúkskort hafi verið götunni (Vesturgötu, Garðastræti var þá ekki til) til óprýði og skammar, þótt síðar kvæði við annan tón í blaðinu.

Jón Björnsson kaupmaður í Grófinni tók þessa ljósmynd af Dúkskoti. Búið er að byggja bíslag við inngang bæjarins, sýnilega af vanefndum. Myndin er tekin einhverjum árum síðar en myndin að ofan, líklega skömmu áður en Dúkskot er rifið um 1920. Jón Björnsson tók einnig þessa ljósmynd, væntanlega á sama tíma. Þarna sést suðurgafl bæjarins og baka til má sjá hús við Vesturgötu. Suðurgaflinn er bárujárnsklæddur en norðurgaflinn úr timbri. Vandað útlit eða samræmi í efnisvali þóttu ekki forgangsmál og því tjaldað sem til var.
Grunnmyndir af Dúkskoti samkvæmt eldri virðingarlýsingum. Hjörleifur Stefánsson arkitekt útbjó þessar grunnmyndir en hann hefur manna mest rannsakað inniviði gömlu Reykvísku torfbæjanna.
Teikning úr leiðangri Gaimards frá árinu 1836. Líklegt er talið að þetta sé Dúkskot, en kotbýlin voru mörg hver keimlík í útliti. Teikning sem sýnir Dúkskot vinstra megin og Gróubæ hægra megin. Líklega er þessi teikning gerð undir lok 19. aldar.

Þótt Dúkskots sé minnst sem eins af síðustu torfbæjunum í miðbænum þá er bærinn trúlega þekktastur vegna morðmáls þar sem kona myrti bróður sinn á hrottalegan hátt. Árið 1913 bjó Jón Jónsson í Dúkskoti (alnafni þess sem byggði bæinn 100 árum fyrr). Sambýliskona hans, Júlíana Silfa Jónsdóttir, myrti þar bróður sinn Eyjólf Jónsson með því að setja rottueitur í skyr hans. Júlíana var dæmd til lífláts árið 1914 en refsingin var milduð.
Morðið í Dúkskoti var eitt fyrsta æsifréttaefni dagblaða í Reykjavík. Meðfylgjandi dúkrista af Dúkskoti birtist í Morgunblaðinu í nóvember 1913 í tengslum við morðið og telst vera fyrsta fréttamyndin sem birtist í íslensku dagblaði.
Síðustu áratugina áður en Dúkskot var rifið bjó þar margt sérstakt fólk sem ýmsar sögur gengu af. Undantekningalítið fátækt fólk sem átti ekki kost á betra húsnæði