Grímsstaðir


Fyrsta býlið reisti Grímur Egilsson árið 1842 og nefndi bæinn Grímsstaði sem Grímsstaðarholtið var síðan kennt við en áður hafði svæðið kallast Móholt. Síðasti Grímsstaðarbærinn stóð nálægt gatnamótum Dunhaga og Ægissíðu eða þar sem nú er Ægissíða 62. Engin byggð var þá á þessum slóðum en framhjá holtinu lá aðalleiðin frá Reykjavík suður í Skildinganes, þaðan sem ferjað var til Bessastaða, Hafnarfjarðar og suður með sjó. Farið var að kalla þennan slóða Melaveg en síðar var nafninu breytt í Suðurgötu. Á Grímsstaðarholtinu reis smá saman þéttbýliskjarni án fastmótaðs skipulags sem taldist nokkuð einangraður frá miðbænum. Þótti heldur minni ljómi yfir því fátæka tómthúsfólki sem þar bjó en þeim íbúum sem síðar áttu lögheimili við Ægissíðuna.
Myndin sýnir hluta af korti af Grímsstaðarholti frá 1887. Innan ferninginsins má sjá tómthúsabyggðina sem byrjaði að myndast á seinni hluta 19. aldar. Örin bendir á bæinn Grímsstaði. Í gegnum svæðið gengur vegur frá Görðum, sem byggðir voru um 1860, kallaður Garðavegur. Strandlengjan sést ofarlega hægra megin á myndinni og stafirnir Sk eru byrjunin á orðinu Skerjafjörður.

Kort af Grímsstaðaholtinu frá 1919. Auk Grímsstaða má sjá allmörg fleiri hús, þar á meðal torfbæinn Litlu-Brekku við Suðurgötu sem var síðasti torfbærinn í Reykjavík og stóð til 1980. Sama kort og vinstra megin en hefur verið lagt yfir núverandi götukort. Þar má því sjá nokkuð nákvæma staðsetningu Grímsstaða og Litlu-Brekku.
Frá Grímsstaðaholti. Fremst til vinstri á myndinni sjást Jónshús og Björnshús en ofar á myndinni eru hús við Fálkagötu. Bæir upp af Grímsstaðarvör þar sem stundað var útræði fram undir 1990. Frá vinstri Bjarnastaðir, Bjarg, Jónshús og Björnshús. Neðan við Björnshús sést í Grímsstaði lengst vinstra megin á myndinni.
Ljósmyndir úr Grímsstaðarvör frá árinu 1976. Gert var út þaðan fram undir aldamót þótt í smáum stíl væri, mest megnis á grásleppu á vorin. Ekki hefur verið hróflað við strandlengjunni þannig að Grímsstaðarvör er enn vel sýnileg.