Bæir við Ingólfsstræti


Kort frá um 1880 sem sýnir götur og hús í Þingholtum á þeim tíma. Vinstra megin á myndinni lóðrétt er Bankastræti og Laugavegur í framhaldi, en hliðargötur sem sjást eru Þingholtsstræti, Ingólfsstræti og Skólavörðustígur.
Ingólfsstrætisbæir eða efri Þingholtsbæir eins og þeir voru gjarnan nefndir var torfbæjaröð sem stóð þar sem nú er Ingólfsstræti auk nokkurra bæja í næsta nágrenni. Um 1850 voru eftirfarandi torfbæir á þessu svæði: Bjarg (2), Stafn (5), Ofanleiti (7) og Grímsbær (8) við Ingólfstræti. Skaptabær (3) á horni Bankastrætis og Skólavörðustigs, Snússa (Sn) við Laugveg 4 og Bergstaðir (10) við Bergstaðastræti.
Á þessari teikningu frá 1880 hefur húsum fjölgað töluvert frá því sem var um 1850, en sum þeirra húsa eru gripahús eða skemmur. Steinhús og timburhús eru merkt með fylltum ferningum.


Sama kort frá 1880 en sett ofan á núverandi götukort. Þannig fæst nokkuð nákvæm staðsetning húsa, þ.m.t. torfbæja á svæðinu. Á þessum tíma er torfbæjum farið að fækka og timburhús og steinhús að taka við. Torfbæir á svæðinu eru merktir með X.
Teikningin er fengin að láni frá Borgarsögusafni Reykjavíkur.

Myllan í Bankastræti og torfbæir í efri Þingholtum, þar sem í dag er Þingholtsstræti og Ingólfsstræti næst Bankastræti. Myndin er tekin árið 1890. Ekki er fullljóst hvaða bæir þetta eru en líklega eru þetta bæirnir Bjarg og Stafn sem stóðu við Ingólfsstræti, en þeir voru báðir rifnir á síðasta áratug 19. aldar. Myllan stóð þar sem nú er Bankastræti 8-10. Ofan við stíginn neðst á myndinni má sjá í tvo torfbæi. Þessi stígur varð síðar Ingólfsstræti. Torfbærinn fjær er Bjarg sem hafði tvær burstir þótt aðeins sú vestari sjáist. Nær sést í þekjuna á Stafni sem snéri í austur-vestur. Torfbærinn Stafn stóð þar sem í dag er Ingólfsstræti 5 og Bjarg þar sem nú er Ingólfsstræti 3. Stafn var rifinn árið 1892 og Bjarg árið 1896.
Ljósmynd af torfbænum Ofanleiti tekin 1893. Bærinn stóð þar sem nú er Ingólfsstræti 7. Bærinn var reistur snemma á 19. öld en þó ekki síðar en 1815, væntanlega af Grími Árnasyni. Þetta myndarlega hús nefndist Amtmannshúsið og stóð við Ingólfsstræti 9 en á sama stað stóð áður torfbærinn Grímsbær (stundum nefndur Melbysbær). Hann reis um 1840 og rifinn 1879 til að rýma fyrir Amtmannshúsinu sem var byggt ári síðar. Vinstra megin við Amtmannshúsið glittir í torfbæinn Ofanleiti.
Teikning Sigurðar Halldórsson af torfbænum Ofanleiti. Þegar bærinn var rifinn árið 1896 (sumar heimildir segja reyndar 1886) var byggt timburhús á sama stað er enn stendur. Gatnamót Laugavegs og Skólavörðustígs um 1900. Torfbærinn Snússa stóð þar sem í dag er Laugvegur 4, að baki hússins fremst á myndinni.
Málverk Jóns Helgasonar séð upp Bakarabrekkuna, síðar Bankastræti. Dökkleita timburhúsið á miðri mynd er Snússa, en áður stóð þar torfbærinn Litlibær sem oft var kallaður Snússa í daglegu tali. Hægra megin má sjá torfbæ sem er væntanlega Skaptabær sem stóð þar sem nú eru gatnamót Bankastrætis og Skólavörðustæigs. Myndin sýnir umhverfið um 1870 en hafa ber í huga að hún er máluð 30-40 árum síðar. Málverk af timburhúsinu Snússu málað á síðasta áratug 19. aldar. Fyrst er getið um torfbæinn Litlabæ í manntali 1845 en torfbærinn var rifinn 1868 þegar timburhúsið var reist.