Klöpp

Myndin sýnir gamla Klapparbæinn sem Klapparstígur er kenndur við. Klapparvör með bátum Skugghverfinga er í forgrunni, en þaðan þótti gott útræði. Handan við Klöpp var bærinn Skuggi sem Skuggahverfið er kennt við. Myndin er tekin árið 1899. Klöpp byggðist út úr landi bæjarins Arnarhóls árið 1838. Býlið stóð á hárri klöpp, sem það dró nafn sitt af.
Maður að nafni Eyjólfur Þorkelsson reisti fyrsta bæinn á Klöpp. Sonur hans, Níels Eyjólfsson, var ábúandi þar um áratuga skeið ásamt Helgu konu sinni. Þau ræktuðu mikla kálgarða við bæinn suðvestanverðan, þar sem síðar reis Trésmiðjan Völundur. Síðasta íbúðarhúsið á Klöpp var rifið árið 1931, þremur árum fyrr hafði fyrirtækið British Petroleum Company (síðar Olís) tekið í notkun olíustöð sína framan á klöppinni. Bensínstöðin var starfrækt fram á níunda tug síðustu aldar. Verulegar landfyllingar hafa átt sér stað og klöppin sem bærinn var kenndur horfin sem og Klapparvör.

Klöpp árið 1836 samkvæmt teikningu Gaimard. Málverk Jóns Helgasonar biskups. Sýnir Klöpp og Klapparvör um 1870.
Nikulásarkot í forgrunni, en hægra megin á myndinni sést Klöpp. Málverk Jóns Helgasonar biskups. Trésmiðjan Völundur var reist á lóð Klappar og Vindheima. Myndin er tekin um 1905.
Ljósmynd frá um 1900 sýnir báta sjómanna úr Skuggahverfinu í Klapparvík. Torfbæinn Klöpp sést að baki hjallanna.
Hluti af korti Sveins Sveinssonar frá 1876 af Skuggahverfi. Rauða örin vísar á torfbæinn Klöpp. Bláa örin vísar á Nikulásarkot og sú græna á Sölvhól. Torfbærinn Skuggi sem stóð skammt frá Klöpp fór í eyði um 1845. Bensínstöð BP á Klöpp. Myndin er tekin á svipuðum slóðum og nokkrar af myndunum á undan. Út frá því má með sæmilegri nákvæmni staðsetja torfbæinn Klöpp.
Ljósmynd frá um 1930 sem sýnir olíustöð BP á Klöpp. Þarna er strandlengjan enn að hluta óhreyfð og aðeins sést móta fyrir Klappavík. Olíustöðin stóð fram undir 1990. Síðan hafa miklar landfyllingar breytt ásýnd strandlengjunnar og Klapparvík og Klöpp með öllu horfin. Rauði hringurinn sýnir hvar torfbærinn Klöpp stóð og sá blái torfbæinn Skugga, sem Skuggahverfið heitir eftir.