Landakot

Íbúaskrá
Staðsetning helstu bæja og býla í Reykjavík og nágrenni árið 1703. Yfirlitsmynd af Reykjavík árið 1787. Landakot merkt inn. Vegslóði lá frá miðbænum að Landakoti og þaðan út á Seltjarnarnes.


Yfirlitsmynd yfir lendur Reykjavíkur 1787. Blámerktu býlin eru allt torfbæir, timburhús voru aðeins í Kvosinni á þeim tíma. Sjá má Landakot neðarlega vinstra megin. Landakot var ein af hjáleigum Reykjavíkur og þótti einna best þeirra. Óvíst er um upphaf byggðar í Landakoti en getið er um búsetu þar árið 1548. Landakot fylgdi með er Reykjavík varð konungseign um 1600. Árið 1703 var þar einn ábúandi og alls tólf skráðir til heimilis samkvæmt manntali. Bæjarhúsin gömlu stóðu rétt vestan við Landakotsskóla þar sem nú er leiksvæði skólabarna. Þau stóðu þar líklega eitthvað fram yfir 1850.
Auk Landakots eru heimildir um býlið Litla Landakot sem eru þó rýrar og staðsetning þess kots er ójós. Getið er um fjóra heimilismenn í Litla Landakoti í manntali árið 1816.


Ljósmynd af Landakoti sögð tekin um 1860, þótt líklegra sé að myndin sé 20-30 árum yngri. Vinstra megin er presthúsið byggt 1838 sem stendur enn að stofni til við Túngötu við hlið Landakotsskóla. Húsið byggði Helgi G. Thordersen þáverandi dómkirkjuprestur sem keypti Landakot 1837 og bjó þar um skeið. Í framhaldi bjuggu þar ýmsir þar til franskur trúboðsprestur, séra Bernharður, keypti Landakot árið 1859. Vestan megin við prestssetrið er kapella sem hann útbjó úr útihúsi eða skemmu árið 1860 og telst upphaf kaþólska trúboðsins á Íslandi. Heimildir segja að rétt vestan eða suðvestan við prestssetrið hafi gömlu bæjarhúsin staðið.


Ljósmynd af Landakoti sögð tekin nálægt aldamótum 1900. Árið 1821 eignaðis Lars M. Knudsen Landakot og bjó þar til dauðadags árið 1828 og ekkja hans í framhaldi. Þar ólust upp hinar fríðu og föngulegu dætur þeirra hjóna. Þetta var gleðskaparheimili og voru ýmsir ungir menn þar tíðir gestir, t.d. Jónas Hallgrímsson skáld. Og vitað var að Kristjana Knudsen var tilefni heimsókna hans. Öruggar heimildir eru fyrir því að Jónas bað hennar 1832 en var hryggbrotinn.

Landakot um 1920. Kirkjan er vinstra megin og spítalinn hægra megin. Stígurinn sem í dag er Túngata er gamall slóði sem lá til læknisins og apóteksins í Nesstofu á Seltjarnarnesi. Landakotsskóli um 1910, en skólinn tók til starfa árið áður. Hægra megin er gamla prestssetrið sem byggt var árið 1838.
Kristskirkja eða Landakotskirkja eins og hún er oftast kölluð í dag, er þarna í byggingu. Kirkjan var vígð árið 1929. Sjá má kirkjuklukkurnar fluttar á sinn endanlega stað. Gamla kirkjan sést hægra megin en hún var í framhaldi flutt á sama stað og kapellan frá 1860 stóð en fékk nýtt hlutverk. Eftir að gamla kirkjan var flutt árið 1929 á hornið á Túngötu og Hofsvallagötu var húsið nýtt sem íþróttahús ÍR fram til 2004 þegar það var flutt á Árbæjarsafn þar sem það stendur í dag. Húsið var upphaflega keypt tilsniðið frá Noregi og vígt sem kirkja kaþólska safnaðarins árið 1897 og fékk að standa þar í 30 ár.
Landakotstún. Lengst til hægri er Doktorshúsið sem stóð þar sem nú er Ránargata 13. Myndin er trúlega tekin á síðasta áratug 19. aldar. Landakotstún trúlega um 1920. Hægra megin er kirkjan og Landakotsspítali. Skólahúsið sem byggt var 1907-1908 sést vinstra megin.