Melkot

Íbúaskrá
Ferðamenn við Melkot þar sem Suðurgata liggur nú. Melkot stóð austan megin við Suðurgötu, rétt aftan við ráðherrabústaðinn við Tjarnargötu. Melkotstúnið var þar fyrir neðan og náði niður að Tjörninni. Melkot var afbýli frá Melshúsum sem var ein af hjáleigum Reykjavíkurbæjarins. Ekki er vitað hvenær Melkot var fyrst byggt en tveir ábúendur voru þar árið 1769. Sama ættin bjó í Melkoti lengst af á 19. öld. Magnús Einarsson fæddist í Melkoti árið 1839 og varð ábúandi þar í fyllingu tímans. Reyndar hafði túnið þá verið tekið undan Melkoti og selt einum bæjarmanna án þess að ábúandanum væri gefinn kostur á að eignast grasnytina. Aðalatvinna Magnúsar varð því sjósókn.
Ístaka á tjörninni um 1900. Sjá má Melkot í bakgrunni. Hægra megin á myndinni er líkhúsið í kirkjugarðinum við Suðurgötu. Í dag er Melkot trúlega kunnast fyrir að vera fyrirmyndin að Brekkukoti í Brekkukotsannál Halldórs Laxness. Hjónin Guðrún Klængsdóttir og Magnús Einarsson fyrir framan bæ sinn í Melkoti árið 1902. Guðrún var ömmusystir Halldórs Laxness (sem fæddist þetta sama ár) og þau ólu upp Sigríði, móður skáldsins. Guðjón Helgason, faðir Halldórs, var vinnumaður í Melkoti er þau Sigriður kynntust.
Hluti úr korti Sveins Sveinssonar frá 1876. Rauða örin vísar á Melkot og sú bláa á Melshús. Vegurinn sem sést á myndinni er Kirkjugarðsstígur, síðar Suðurgata. Kirkjugarðurinn er vestan megin og þar er líkhúsið merkt. Norðar má sjá torfbæina Skólahús og Hólakot. Vestan við Hólakot er Hólavallamylla. Á þessum tíma var Suðurgata troðningur sem lá úr Kvosinni í átt að Skildingarnesi þar sem stutt sjóleið var til Bessastaða. Væntanlega eru þetta hjónin Magnús Einarsson og Guðrún Klængsdóttir sem þarna standa við bæ sinn. Myndin virðist tekin úr risinu á Ráðherrabústaðnum. Ráðherrabústaðurinn var byggður árið 1908 og myndin því tekin á tímabilinu 1908 til 1916 þegar bærinn var rifinn. Ekki virðist sérstakur gleðisvipur á þeim hjónum, en strákunum fremst á myndinni finnst aðfarir ljósmyndarans augljóslega spennandi.


Mynd eftir Mugg af Melkoti árið 1913. Gaflinn á Ráðherrabústaðnum sést hægra megin og kirkjugarðurinn við Suðurgötu vinstra megin. Hannes Hafstein reisti Ráðherrabústaðinn árið 1908 nánast á hlaðinu hjá Melkoti. Mun Magnúsi gamla ekki hafa líkað sambýlið vel. Haustið 1916 auglýsti hann eigur sínar á uppboði og skömmu síðar var Melkot jafnað við jörðu.

Í Brekkukotsannál segir: „Til þess að gera lánga sögu stutta, þá er þar til máls að taka að sunnanvið kirkjugarðinn í höfuðstaðnum okkar tilvonandi, þar sem brekkan fer að lækka við syðri tjarnarendann, alveg á blettinum þar sem hann Guðmundur Gúðmúnsen sonur hans Jóns Guðmundssonar í Gúðmúnsensbúð reisti loks veglegt hús, þar stóð einu sinni Iítill torfbær með tveim burstum; og þilin tvö vissu suðrað tjörninni. Þessi litli bær hét í Brekkukoti."