Móhús

Óvíst hvenær bærinn Móhús er reistur en hann kemur fyrir í manntali 1845. Þar bjó G. Lambertsen sem ræktaði mikið tún alla leið niður að tjörn. Þórhallur Bjarnason síðar biskup kaupir býlið árið 1896 og byggir þar íbúðarhús sem hann nefndi Laufás og stendur enn við Laufásveg 48. Hljómskálagarðurinn var hluti af túnum Móhúsa og búskapur var þar til ársins 1927. Milli Skálholtskots og Móhúsa var götutroðningur, oftast illfær, sem seinna varð Laufásvegur. Málverk Jóns Helgasonar af Laufási frá 1910, en þá var enn mikill kúabúskapur stundaður þar. Á miðri 19. öld taldist Móhús nokkuð fyrir utan miðbæinn en nálægt Móhúsum stóð torfbærinn Stekkjarkot. Óvíst er um uppruna Stekkjarkots en bærinn er nefndur í manntali árið 1845 og þar þá sögð tvö heimili. Skv. eldri kortum virðist Stekkjarkot hafa staðið þar sem í dag er Bergstaðarstræti 63.


Hluti úr korti Björns Gunnlaugssonar frá 1850. Sýnir bæi í suður Þingholtum og austur úr. Rauða örin bendir á Móhús og sú bláa á Stekkjarkot sem stóð í næsta nágrenni. Grænu örvarnar benda á Skálholtskot og Grænuborg, en troðningur frá Skálholtskoti að Móhúsum og áfram að Grænuborg er núverandi Laufásvegur. Grænaborg stóð þar sem nú er grasflöt fyrir framan gamla Landspítalann.
Krigers minni sem einnig sést á teikningunni er gamla skólavarðan sem stóð efst á Skólavörðuholtinu og holtið er kennt við.

Ljósmynd sem Jón Björnsson kaupmaður í Grófinni tók af suður Þingholtum trúlega um 1920. Rauða örin bendir á Laufás og sjá má fjósið fyrir neðan íbúðarhúsið. Mörg reisuleg hafa risið í nágrenninu, meðal annars Galtafell hús Péturs J. Thorsteinssonar frá Bíldudal sem stendur enn við Lausásveg 49. Ofarlega til vinstri má sjá Hnitbjörg Listasafn Einars Jónssonar á Skólavörðuholtinu.


Ljósmynd af Laufási í dag, en húsið var byggt 1896 eins og stendur á framhlið þess. Telst vera Laufásvegur 48 og augljóslega ber gatan nafn þess.