Skálholtskot

Íbúaskrá


Uppdráttur Rasmus Lievog af Reykjavík frá árinu 1787. Skálholtskot var ein af hjáleigum Víkur (Reykjavíkur). Ekki er ljóst hvenær byggð hófst þar, en samkvæmt Jarðabókinni 1703 er þar talinn einn ábúandi og heimilismenn aðeins fjórir. Kvikfénaður er þá þrjár kýr, níu ær, þrír veturgamlir sauðir og átta lömb. Bæjarhúsin stóðu þar sem nú eru gatnamót Laufásvegar og Skálholtsstígs. Land Skálholtskots var að mestu lagt undir kaupstaðarlóð Reykjavíkur árið 1792 og að fullu undir lögsagnarumdæmið árið 1806.
Á norðausturhorni Skálholtsstígs og Laufásvegar var Norðurbærinn sem stóð lengst Skálholtsbæjanna, eða nokkuð fram á 20. öld. Bær þessi var síðast notaður til að vista geðveikt fólk, var deild frá Kleppsspítala og nefndur Litli-Kleppur. Ofar í lóðinni var á þriðja áratug 20. aldar reist steinhús sem enn stendur við Laufásveg 13. Handan götunnar, þar sem nú er bílastæði merkt Laufásvegur 15, var byggt timburhús laust fyrir aldamótin 1900 þar sem síðasti torfbærinn sem tilheyrði Skálholtskoti stóð.


Kort af suður Þingholtum frá árinu 1880. Skálholtskot er merkt inn á myndina sem og Stöðlakot, en bæði voru hjáleigur frá Reykjavíkurbænum, þær einu austan lækjar. Lærði skólinn og Bókhlaðan sjást einnig og stígurinn sem liggur upp að Stöðlakoti er í dag Bókhlöðustígur. Milli Stöðlakots og Skálholtskots lá einnig stígur eða troðningur sem var upphafið að Laufásvegi. Stígurinn lá síðan áfram að Laufási og þaðan að Grænuborg eins og Laufásvegur liggur í dag.


Málverk Jóns Helgasonar af Skálholtskoti frá 1895. Skálholtskot var á síðari hluta 19. aldar þyrping húsa, sum enn torfbæir.

Kort Niels Aage-Edwin eins og Þingholtin litu út árið 1876. Skálholtskot er lengst til hægri á myndinni. Stígurinn frá Bókhlöðu Menntaskólanum að Skálholtskoti er Laufásvegur í dag. Skálholtsstígur heitir eftir bænum. Kort af Þingholtum árið 1887. Rauði kassinn sýnir hús við Þingholtsstræti. Skálholtskot er ofarlega hægra megin við rauða kassann.
Ljósmynd af Skálholtskoti frá 1890. Myndin er tekin frá Laufásvegi 5. Sjá má grjótgarða sem afmarka Laufásveg. Ljósmynd af Laufásvegi árið 1907. Skálholtskot er fyrir miðju í bakgrunni.