Bæir í Skuggahverfi


Málverk Jóns Helgasonar biskups af bæjum í Skuggahverfinu. Bæirnir sem sjást eru norðan við þar sem Hverfisgata liggur í dag. Líklega eru þetta Steinsstaðir, Veghús, Móakot og Miðhús sem sjást á myndinni.
Skuggahverfið er nefnt eftir torfbænum Skugga sem reistur var árið 1802 og stóð rétt austur af Klöpp þar sem Skúlagata er í dag. Í Skuggahverfinu bjó mest mjög fátækt tómthúsfólk sem hafði lífsviðurværi sitt af sjósókn. Bæir í Skuggahverfinu þóttu flestir aumleg kot.


Hluti úr korti Sveins Sveinssonar frá 1876 af bæjum í Skuggahvefi. Skuggahverfið afmarkaðist af svæðinu sem í dag er norðan Hverfisgötu, austan Ingólfsstrætis og vestan Frakkastígs. Ljósu ferningarnir eru torfbæir. Sjá má út frá teikningunni hvernig bæirnir snéru og sem fjölda bursta.
Um miðja 19. öld voru eftirfarandi torfbæir í Skuggahverfinu: Klöpp og Skuggi sem Skuggahverfið er kennt við stóðu rétt norðan við Skúlagötu til móts við Klappastíg, Vindheimar við Klapparstíg 5, Nikulásarkot við Sölvhólsgötu 13, Sölvhóll við Sölvhólsgötu 6, Traðakot á gatnamótum Hverfisgötu og Smiðjustígs, Steinsstaðir við Hverfisgötu 29, Veghús við Veghúsastíg 1, Móakot við Lindargötu 31 og Miðhús við Lindargötu 37.

Nikulásarbær sem Nikulás Erlendsson reisti um 1830 er í forgrunni. Síðar var bætt við bæinn og eftir það festist nafnið Nýibær við bæinn. Stóð trúlega fram til 1880-1890. Árið 1941 var Steinhús Landssmiðjunnar byggt á lóðinn Sölvhólsgötu 13. Málverk Jóns Helgasonar sýnir umhverfið um 1870, en það er málað einhverjum áratugum síðar. Steinbærinn Traðarkot við Hverfisgötu sést vinstra megin á myndinni frá 1906, en steinbærinn stóð til 1960. Áður stóð þar torfbær með sama nafn. Auðvelt er að staðsetja bæinn því húsið hægra megin er Hverfisgata 16 sem er nánast óbreytt í dag. Traðarkot sem reis um 182o ber nafn sitt af Arnarhólströðum sem stóðu þar rétt við og var aðalleiðin til Reykjavíkur í margar aldir, fram undir miðja 19. öld.
Höltersbær um 1900. Stóð þar sem nú er Hverfisgata 41. Ekki liggur fyrir hvenær bærinn var reistur en það var a.m.k. eftir 1850. Bærinn er kenndur við Vilhelm Hölter sem var tómthúsmaður og alþýðuskáld sem bjó þar um 1870 ásamt konu sínni og börnum. Annar torfbær með sama nafni var í Grjótaþorpinu en var rifinn árið 1863 þegar stórhýsið Glasgow var byggt. Teikning Michale Lund af torfbæ í Reykjavík frá 1852, hugsanlega af Hellulandi við Vesturgötu sem þótti með verri kotum. Þetta gæti þó eitt af kotunum í Skuggahverfi, sem þóttu sum hver lítið betri til búsetu.
Sjósókn var helsta lífsviðurværi flestra sem í Skuggahverfi bjuggu. Mest var gert út frá Klapparvör þar sem þessar myndir eru teknar en þar austur af voru fleiri varir sem róið var frá en þóttu síðri. Á vinstri myndinni eru menn að þurrka fisk á trönum en á þeirri hægra er gamall maður að flaka fisk.