Bæir við Tjarnargötu

Málverk Jóns Helgasonar sem sýnir Reykjavík um aldamótin 1800. Örin bendir á torfbæi sem voru þar sem nú er Tjarnargata 4-6. Þarna stóðu á þessum tíma bæirnir Brúnsbær, Teitsbær auk þess stóð Zuggersbær á sömu slóðum, rétt austan við Brúnsbæ. Óljóst er hvenær fyrst var búið á þeim stað sem Brúnsbær stóð en getið er um bæinn sem hluta af Reykjavíkurbæjunum 1759, en bærinn var rifinn 1834. Teitsbær var reistur árið 1797 og stóð til 1850. Zuggerbær var upphaflega smiðja Innréttinganna, en var síðar búið í. Var þar sem nú er Kirkjustræti 4. Um 1845 stóð til að byggja upp bæinn en yfirvöld bönnuðu það, vildu ekki torfbæi í hjarta bæjarins. Eftir það var bygging torfbæja í miðbænum bönnuð en torfbæir risu áfram umhverfis bæinn. Timburhús reis á sama stað og Zuggerbær var árið 1847 og stóð til 1897 þegar nýtt hús var byggt þar í stað.

Kort Ohlsen og Anaumus frá 1801 lagt ofan á núverandi borgarkort. Torfbæirnir Brúnsbær og Teitsbær sem stóðu þar sem í dag er Tjarnargata 4 og 6. Kort Lottins frá 1836 lagt ofan á núverandi borgarkort. Torfbæirnir Teitsbæ og Suðurbær stóðu þar sem í dag er Tjarnargata 6 og 8 sem er í dag bílastæði. Þarna er nýlega búið að rífa torfbæinn Brúnsbæ og byggja timburhús á sama stað sem stóð næstu 110 árin. Húsið er merkt sýslumannshús en Stefán Gunnlaugsson sýslumaður bjó þar frá 1834—1837.
Hluti af korti Lottins frá 1836, því sama og á myndinni fyrir ofan. Þarna má sjá Teitsbæ og Suðurbæ. Athygli vekur að önnur hús á myndinni eru númeruð, ekki hefur þótt þörf á að skrá torfbæina þar sem alþýðan bjó. Málverk Jóns Helgasonar af Suðurgötu árið 1839, málað 60 árum síðar. Sjá má torfbæina Teitsbæ og Suðurbæ. Óvíst er hvenær Suðurbær, eða Suðurbæir, voru reistir en getið er um bæinn í manntali árið 1845 og þá tvíbýlt. Þóttu örgustu óþrifabæli og voru rifnir 1868. Ólafur Jónsson sem fyrstur var settur í gapastokk í Reykjavík 1804 bjó þar, einnig Guðmundur bæjarböðull og fleira skrautlegt fólk.
Árið 1944 stóð til að rífa húsið að Tjarnargötu 4 sem þá var 110 ára gamalt og hafði verið reist þegar torfbærinn Brúnsbær var rifinn. Húsið átti sér mikla sögu þessa 110 ár og bjó þar margt merkra manna og kvenna og þótti ákaflega gott hús þó það hafi verið orðið býsna lúið þegar það var að lokum rifið. Á tímabili var húsið kallað Helgesenhús.
Þegar húsið var rifið komu í ljós hleðslusteinar að öllum líkindum úr torfbænum Brúnsbæ auk fjölda smáhluta sem væntanlega tilheyrðu ábúendum í Brúnsbæ eða þeim sem bjuggu þar enn fyrr.
Bærinn var upphaflega reistur 1752 fyrir beyki Innréttinganna. Árið 1791 keypti dönsk kona, madama Christine Bruun, ekkja Sigvardts Bruuns fangavarðar og fékk hann þá nafnið Brúnsbær. Nokkru eftir aldamótin bjó þar Peter Malmquist, sænskur beykir ásamt konu sinni. Þegar Jörgen Jörgensen (Hundadagakonungur) kom hingað í fyrra skiptið, í ársbyrjun 1809, sem túlkur James Savignacs verzlunarstjóra, fengu þeir inni hjá Malmquist, og átti Jörgen Jörgensen þar heima, unz hann fór utan aftur í marz sama ár. Kom Malmquist mikið við stjórnarbyltingu Jörgensens, sem hann stóð fyrir þegar hann kom hingað aftur um sumarið. Brúnsbær stóð í rúm 20 ár til viðbótar áður en hann var endanlega rifinn.
Hús Happadrættis Háskólans, Tjarnargötu 4, stendur á sama stað og Brúnsbær stóð áður. Teitsbær stóð þar sem nú er bílastæði við Tjarnargötu 6. Suðurbær stóð þar við hliðin á og náði út í Vonarstræti eins og gatan er í dag.