Tómthúsbýli í Reykjavík um miðja 19. öld


Tómthúsmenn eða þurrabúðarmenn nefndust þeir sem bjuggu án þess að hafa landnæði eða stunda hefðbundinn búskap. Þessir aðilar höfðu flestir lifibrauð af sjósókn eða stunduðu íhlaupavinnu sem oft var stopul.

Torfbæirnir eða tómthúsbýlin í Reykjavík voru undantekningalítið reist af vanefnum enda langoftast bláfátækt fólk sem í þeim bjó. Tómthúsbýlin í Reykjavík á 19. öld voru flest í hlíðunum umhverfis Kvosina, í Grjótaþorpi og Þingholtunum. Kaupmenn, embættismenn og aðrir sem betur máttu sín bjuggu hins vegar í timburhúsum í miðbænum.

Tómthúsbýlum í Reykjavík tók að fjölga í byrjun 19. aldar samhliða því sem íbúunum fjölgaði. Um 1850 voru torfbæirnir orðnir nálægt 100 og urðu flestir á tímabilinu 1850 til 1870 en eftir það fór þeim fækkandi og steinhús og timburhús byggð í þeirra stað.

Sagan hefur sjaldnast veitt fátæku fólki mikla athygli og takmarkaðar upplýsingar eru til um marga þeirra torfbæja sem uppi stóðu á þessum tíma. Umfjöllunin hér mótast að nokkru af því. Reynt er að fjalla um þá bæi sem hafa sögulegt gildi eða gögn eru til um, en í sumum tilfellum er fjallað um hverfi eða bæjarþyrpingar.